Utanríkisráðherra Íslands

Össur-Skarphéðinsson-utanríkisráðherra-Íslands

Það er ljótur veruleiki sem birtist á þessari átakanlegu sýningu um fórnarlömb kjarnorkusprenginganna í Hiroshima og Nagasaki í Japan fyrir 67 árum síðan. En þetta er veruleiki sem mikilvægt er að jarðarbúar allir – Íslendingar meðtaldir – horfist í augu við. Hann sýnir svo ekki verður um villst hversu hryllilegar afleiðingar beiting kjarnorkuvopna getur haft og brýnir okkur sameiginlega í því mikilvæga verkefni að tryggja komandi kynslóðum heim án kjarnavopna. „Betri er sannleikur byrstur og grár, en bláeyg lygi með glóbjart hár,“ orti ljóðskáldið Steingrímur Thorsteinsson á nítjándu öld og hann hafði rétt fyrir sér.

Ég vil þakka forsvarsmönnum Minningarstofnunarinnar í Nagasaki um fórnarlömb kjarnorkusprengjunnar þann heiður sem okkur er sýndur með því að halda þessa gagnmerku sýningu hér á Íslandi í ár. Þetta er ekki beinlínis sýning fyrir viðkvæma eða börn, myndirnar og munirnir á sýningunni eru þess eðlis. En samt er kannski einmitt bráðnauðsynlegt að við uppfræðum ungu kynslóðina um gereyðingarmátt kjarnorkusprengjunnar. Mig grunar að hver sá sem heimsækir þessa sýningu verði fyrir djúpstæðum áhrifum sem vara munu lengi. Og þá er tilganginum náð.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi. Þetta gerum við sem aðildarríki að samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) og með þróttmiklum málflutningi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Það ríkir um það breið samstaða á Íslandi að Íslendingar, sem herlaus þjóð, eigi að beita sér í þágu friðar og afvopnunar – og að þetta eigi að vera stefna stjórnvalda.

Það var einmitt hinn 9. ágúst fyrir 67 árum síðan sem kjarnorkusprengjunum var varpað á grandalausa íbúa borganna tveggja, Nagasaki og Hiroshima, með þeim afleiðingum að 200 þúsund manns biðu bana og margir til viðbótar urðu fyrir alvarlegum og varanlegum skaða. Hér á landi hefur skapast sú hefð að efna til friðargöngu á þessum degi og fleyta kertum til minningar um fórnarlömbin í Hiroshima og Nagasaki. Sýningin í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Menningarhúsinu Hof á Akureyri er ánægjuleg viðbót við þann góða sið. Fyrsta kertafleytingin var haldin í ágúst 1985 eftir að eftirlifendur í Japan höfðu sent Íslendingum kerti og farið fram á stuðning í baráttu sinni fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi. Okkur var ljúft og skylt að svara kalli þeirra þá og okkur er ekki síður ljúft og skylt að taka í dag á móti vinum okkar frá Japan. Kjarnorkusprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki mega aldrei og munu aldrei gleymast.

Össur Skarphéðinsson
Utanríkisráðherra Íslands