Í ágúst árið 1945 breyttu kjarnorkusprengjur borgum okkar í rústir einar á örskotsstundu og meira en 200.000 manns týndu dýrmætu lífi sínu. Þeir sem lifðu sprengjurnar af hafa síðan glímt við lífshættulegar afleiðingar geislavirkni, hinnar einstöku ógnar kjarnorkusprengna. Enn þann dag í dag eru afleiðingar geislunarinnar ekki að fullu þekktar og þeir sem lifðu af, lifa í stöðugum ótta.
Á grunni reynslu okkar af kjarnorkusprengjunum fyrir 67 árum, fylgjum við fordæmi þeirra sem lifðu af, risu upp úr djúpi örvæntingar og freista þess að fá þjóðir heims til að útrýma kjarnorkuvopnum. Með sameiginlegu átaki fjölmargra hefur til þessa, tekist að koma í veg fyrir notkun kjarnorkuvopna, en sú von að útrýma þeim brást á 20. öldinni.
Það er von okkar, að með þessari ljósmynda-, fræðslu- og minjasýningu, gerir þú þér ljósa þá hræðilegu eyðileggingu sem kjarnorkusprengjur valda, og að þér megi ljóst verða að kjarnorkuvopn eru af hinu illa og gætu útrýmt mannkyninu. Við vonum að sýningin blási þér baráttuanda í brjóst og þú leggir þitt af mörkum til þess að 21. öldin verði öld friðar, án kjarnorkuvopna. Við trúum því að framlag hvers einasta einstaklings geti stuðlað að auknum alþjóðlegum þrýstingi á útrýmingu allra kjarnorkuvopna og þar með friðsamlegri heimi.
Að lokum vottum við öllum þeim sem hafa gert þessa sýningu mögulega, okkar dýpstu aðdáun og þakklæti.
Kazumi Matsui
Borgarstjóri Hírósíma
Tomihisa Taue
Borgarstjóri Nagasaki