Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki og afleiðingar þeirra verður opnuð í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19.30 og er opin það kvöld til kl. 22.00, en þá geta gestir gengið til Tjarnarinnar þar sem kertafleyting í minningu fórnarlambanna hefst kl. 22.30. Á sýningunni eru munir frá atburðunum, áhrifamiklar ljósmyndir og fræðsluefni. Við kertafleytinguna við Tjörnina flytur Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, ávarp, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um kílómeters fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll.
Sýningin fjallar á áhrifamikinn hátt um geigvænleg áhrif kjarnorkusprenginganna á íbúa og mannvirki í Hírósíma og Nagasaki. Alls létust strax eða á fyrstu mánuðunum eftir að sprengjurnar féllu um 214.000 manns og álíka margir hafa fram til ársins 2011 látist af eftirköstum kjarnorkuárásanna. Enn þjást um 227.500 manns sem bjuggu í Hírósíma og Nagasaki árið 1945 vegna sjúkdóma sem raktir eru til sprenginganna. Á sýningunni er m.a. fjallað um skammtíma- og langtímaáhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu, áhrif tilrauna með kjarnavopn á menn og dýr og um tilraunir til samningagerðar á alþjóðavettvangi um takmörkun og eyðingu kjarnavopna.
>Sýningin kemur hingað frá Nagasaki minningarsafninu, Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims, sem starfar á vegum japanska velferðarráðuneytisins og hefur það hlutverk að varðveita minningu þeirra sem létust vegna kjarnorkuárásanna í Nagasaki og Hírósíma og beita sér fyrir útrýmingu kjarnavopna með fræðslu og upplýsingamiðlun. Samstarfsaðilar á Íslandi eru utanríkisráðuneytið, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Menningarhúsið Hof á Akureyri, sendiráð Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagið, Takanawa ehf. og Samstarfshópur friðarhreyfinga.
Fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 00.10 sýnir RÚV heimildarmynd um baráttuna gegn kjarnavopnum, In My Lifetime: A Presentation of the Nuclear World Project.
Tweet