Af hverju er nauðsynlegt að útrýma kjarnorkuvopnum?
Mögulegar leiðir með alþjóðasamningum – staðbundnar og alþjóðlegar áskoranir
Opinn fyrirlestur aðstandenda Ljósmynda- og fræðslusýningarinnar með Gareth Evans (http://www.gevans.org/),einum fremsta sérfræðingi heims á sviði kjarnorkuafvopnunar, fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu og núverandi rektor The Australian National University, fimmtudaginn 4. október kl. 12 til 13:15 í Súlnasal Hótel Sögu. Fundarstjóri er Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Í erindi sínu mun Evans fjalla um útrýmingu kjarnorkuvopna sem eina af mikilvægustu áskorunum samtímans, m.a. vegna þess hversu öryggismálum í tengslum við kjarnorkuvopn er oft ábótavant. Evans fer yfir stöðuna í alþjóðlegri umræðu og samningaumleitunum síðustu árin , ræðir hlutverk stofnana eins og Evrópusambandsins, sem og hlutverk smærri ríkja. Setja þarf raunsæ markmið og finna leiðir til að takmarka útbreiðslu og eyða þeim kjarnorkuvopnum sem til eru. Verkefnið er gífurlegt en þær kjarnorkusprengjur sem til eru í heiminum í dag jafngilda um 150.000 Hírósíma sprengjum. Kjarnorkuvopnin og efnin sem þarf til að búa þau til, eru varðveitt í 32 löndum.
Gareth Evans á glæstan feril að baki en hann var utanríkisráðherra Ástralíu árin 1988-1996. Hann hefur verið í forystusveit í alþjóðlegum nefndum og ráðum á sviði kjarnorkufvopnunar. Evans var til að mynda formaður International Commission on Nuclear Non-Proliferation and Disarmament (ICNND) og Asia Pacific Leadership Network on Nuclear Non-Proliferation and Disarmament (APLN). Á árunum 2000-2009 var hann forseti og framkvæmdastjóri hinnar virtu hugveitu, International Crisis Group, sem þekkt er fyrir úttektir sínar á átakasvæðum samtímans hverju sinni. Evans hefur einnig setið í ýmsum mikilvægum nefndum á vegum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal nefndar sem samdi skýrslu um skyldu aðildarríkja SÞ til að vernda óbreytta borgara (e. Responsibility to Protect). Tildrög skipunar nefndarinnar voru voðaverkin í Rúanda og Srebrenica um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Hefur R2P-kenningin svokallaða mjög verið til umræðu æ síðan, m.a. í tengslum við atburðina í Líbíu á síðasta ári og nú í Sýrlandi.
Tweet